top of page

Stafafura

Stafafura (Pinus contorta) er sú sígræna trjátegund sem mest hefur verið ræktuð hérlendis og því jafnframt lang mest ræktaða furutegundin. Stafafura er Norður-amerísk trjátegund, sem vex þar á afar víðáttumiklu svæði sem spannar vestanverð Bandaríkin og Kanada. Hún var fyrst gróðursett hér árið 1940 og hefur síðan verið ræktuð óslitið. Árangur af ræktun stafafurunnar hefur verið góður; svo góður að hún nemur hér nú víða land. Sjálfsánar stafafurur finnast nú í nágrenni flestra eldri stafafuruteiga landsins.

 

Notkun

Stafafura er nýtt í útivistar- og nytjaskógrækt. Stafafura hefur einnig verið notuð í garðrækt þó þar sé hún ekki algeng. Mætti nota hana miklu meira í skýlli garða víða um land. Stafafura er einnig mest selda íslenska jólatréð, og nýtur vaxandi vinsælda, enda er hún sérstaklega heppilegt jólatré þar sem hún er barrheldin og ilmandi. Auk þess er hún notuð í jólagreinar og skreytingar. 


Ræktun


Stafafura vex í sínum upprunalegu heimkynnum allt frá fjöruborði upp að skógarmörkum. Þannig hefur trjátegundin aðlagast margskonar loftslags- og jarðvegsskilyrðum. Stafafurunni er skipt í þrjár deilitegundir. Tvær þeirra hafa verið notaðar hérlendis, stranddeilitegundin (P. contorta var. contorta) og innlandsdeilitegundin (P. contorta var. latifolia). Mest af þeirri stafafuru sem hér er ræktuð kemur frá norðurmörkum vaxtarsvæðis hennar, nálægt Skagway í Alaska. Þar mætast báðar deilitegundirnar og mörk þeirra þar eru því óglögg. Skagway er lang algengesta kvæmið í ræktun hér.

 

Stafafura er ljóselsk trjátegund sem vex hratt fyrstu æviárin. Hún hefur mikla getu til að spjara sig í þurrum, rýrum móajarðvegi. Einnig er hægt að rækta hana á flatlendum svæðum þar sem hætt er við síðsumarfrostum, til dæmis þar sem sitkagreni og blágreni skemmast. Hófleg áburðargjöf er æskileg við gróðursetningu og eykur lífslíkur plantnanna í rýru landi, en hana skal forðast í landi þar sem samkeppnisgróður er mikill fyrir.

 

Hægt er að forma stafafuru til með því að „brumbrjóta“ hana. Ráðlegt er að gera það snemma sumars, þegar ársprotinn er enn stökkur og er hann þá einfaldlega brotinn sundur í miðju. Slíkt getur verið þægileg leið til að móta stafafuru í görðum, eða þegar þétta á framtíðar jólatré. 

Ræktun stafafuru hefur gengið vel í öllum landshlutum, þó síst á áveðra stöðum við sjávarsíðuna. Þar hættir henni við að skemmast í vind- og saltálagi. Einnig er henni hætt við sviðnun í þurranæðingum á útmánuðum og vill barrið roðna og skemmast. Yfirleitt eru það ekki alvarlegar skemmdir á eldri plöntum, en geta hægt  á vexti yngri plantna og jafnvel valdið dauða.

 

Meindýr og sjúkdómar

Stafafura er að mestu laus við óværu hérlendis. Furulúsin (Pineus pini) og furubikar (Gremmeniella abietina), sem geta verið skæð á öðrum furutegundum hérlendis, valda litlum sem engum varanlegum skemmdum á stafafuru.  

Greining

Vaxtarlag stafafuru er breytilegt eftir því hvort um er að ræða innlands- eða strandarafbrigði. Tegundin er þó yfirleitt einstofna, með útsveigðar og uppsveigðar greinar sem mynda keilulaga krónu. Nálarnar eru tvær saman í knippi, sjaldnar þrjár, dökkgrænar til gulgrænar. 
Oft á fólk erfitt með að greina á milli tveggja algengustu furutegundanna hérlendis, stafafuru og bergfuru (Pinus uncinata) því báðar tegundirnar eiga margt sameignilegt, sama nála fjölda í knippi, svipaða köngla o.s.frv. Nálar stafafuru eru þó örlítið styttri að jafnaði og ljósari á litinn en á bergfuru, sem bera dökk-grágrænan lit. Einnig á bergfura til að verða fjölstofna, öfugt við stafafurur, þó það sé ekki föst regla. 

Annað áhugavert

Ein kona, Barbara Kalan, safnaði mestum hluta þess stafafurufræs sem hingað hefur borist frá Skagway. Hefur hún því lagt grunn að flestum stafafuruskógum landsins.

Beinvaxinn stafafurulundur

Beinvaxinn stafafurulundur

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Ungskógur á Reyðarfirði

Ungskógur á Reyðarfirði

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Stafafuraköngull í myndun

Stafafuraköngull í myndun

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Gullfalleg stafafura á Tálknafirði

Gullfalleg stafafura á Tálknafirði

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Gamlir könglar hanga oft lengi á

Gamlir könglar hanga oft lengi á

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Sjálfsáning stafafuru í Brynjudal

Sjálfsáning stafafuru í Brynjudal

Ljósmyndari: Jón Ásgeir Jónsson

Frjóhús, þar undir eins árs könglar

Frjóhús, þar undir eins árs könglar

Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Stafafuruungskógur

Stafafuruungskógur

Ljósmynd: Einar Gunnarson

Stafafura í Daníelslundi

Stafafura í Daníelslundi

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Frjóhús

Frjóhús

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Stafafura er vinsælt jólatré

Stafafura er vinsælt jólatré

Ljósmynd: Einar Gunnarsson

bottom of page