Fuglar eru órjúfanlegur hluti skógarvistkerfa heimsins og sinna þar mikilvægri þjónustu. Þeir eru okkur
mönnunum ekki síður mikill yndisauki í allri náttúruskoðun og þau dýr sem við eigum í mestum samskiptum við,
a.m.k. hérlendis.
Tegundafjölbreytni íslensku fuglafánunnar er heldur minni en í nágrannalöndunum, miðað við breiddargráðu, og á það sérstaklega við skógarfugla. Ræður þar skortur á heppilegum búsvæðum miklu.
Með dafnandi skógi víða á landinu hafa skilyrði myndast fyrir fleiri tegundir til að nema hér land og flytja landsmönnum sinn söng ásamt því að stofnar eldri skógarbúa styrkjast.
Margar fuglategundir nýta sér skóga landsins að mismiklu leyti til skjóls, varps og fæðuleitar. Má þar nefna rjúpu, þúfutittling, hrossagauk, smyril, branduglu, hrafn, stara og maríuerlu. Hér að neðan eru upplýsingar um þá fugla sem kunna hvað best við sig í trjám og skógum landsins.