top of page

Sitkagreni

Sitkagreni (Picea sitchensis) er stórgerð, einstofna, sígræn grenitegund, upprunin frá vesturströnd Norður-Ameríku. Sitkagreni er ein algengasta trjátegundin í ræktun hér á landi og að auki hefur allmikið verið gróðursett af blendingi sitkagrenis og hvítgrenis, svokölluðum sitkabastarði (Picea x lutzii). Elstu trén hérlendis eru í Reykjavík, en þau voru sett niður um 1924.

Tegundin er hraðvaxta og verður afar stórvaxin með aldrinum. Hún er talin stórvöxnust allra grenitegunda. Sitkagreni er ein harðgerðasta sígræna trjátegundin sem hér er í ræktun og er bæði vind- og saltþolið. Sitkagreni þroskar oftast fræ í miklu magni um það bil einu sinni á áratug. Sjálfsáð sitkagreni hefur fundist á nokkrum stöðum á landinu en sitkabastarður finnast óvíða sjálfsáður.

Notkun

Sitkagreni er uppistöðutegund í íslenskri skógrækt og eitt af okkar bestu timburtrjám. Tegundin getur myndað mikinn við, en á heimaslóðum vestanhafs verða trén allt að 90-100 metra há þar sem er skjólsælt. Viðurinn er bæði sterkur, endingragóður og léttur miðað við eðlisþyngd.

Tegundin er þó ekki aðeins mikilvæg til timburnytja, heldur er hún uppistaðan í mörgum af okkar helstu útivistarskógum og görðum, enda fáar sígrænar tegundir sem þola jafn vel saltrok strandlengjunnar. Ýmsar fuglategundir, líkt og krossnefur og glókollur, treysta mikið á tegundina til fæðu og skjóls. 


Ræktun

Sitkagreni hefur verið ræktað með ströndinni allt í kringum landið með ágætum árangri og þar sem nær dregur sjó tekur það öðrum sígrænum trjátegundum fram. Má því mæla með notkun þess um allt land, þó síst á þurrari svæðum inn til landsins norðaustanlands. Algengt er að sitkagreni vaxi lítið fyrstu árin eftir gróðursetningu og á það sérstaklega við ef gróðursett er á bersvæði. Til þess að hjálpa plöntunum að vaxa úr grasi er mikilvægt að bera tilbúinn áburð á þær og gæta þess vandlega að halda frá grasi og öðrum gróðri.

Árangurríkast er að velja sitkagreni stað þar sem jarðvegur er frjór og rakur. Sitkagreni er sérlega viðkvæmt gagnvart frostskemmdum og þá sérstaklega fyrir frostum síðla sumars og snemma hausts vegna þess hve seint það lýkur vexti. Þarf að forðast að gróðursetja það í lægðir og lágir í landslaginu þar sem hætta er á að kalt loft geti safnast fyrir. Það er frekar skuggþolin trjátegund, sem er óhætt að gróðursetja í skugga annarra trjáa, svo og norðan við hús.

Sitkagreni er stórvaxin trjátegund og þarf því að varast að setja það í smærri garða. Við útjaðar garða gefur það hinsvegar mjög gott skjól. Sitkagreni þolir vel klippingu og má hæglega nota það í limgerði.

Meindýr og sjúkdómar

Á sitkagreni herjar smádýr sem kallast sitkalús (Elatobium abietinum). Hún veldur skemmdum á nálum, en dregur sjaldnast tré til dauða. Lúsin þolir illa kulda, og ræður því hitastig vetrar miklu um stofnstærð að vori. Þegar hitastig er komið undir -13° taka lýsnar að drepast unnvörpum. Eftir milda vetur aukast því líkurnar verulega á faröldrum.
Til að verjast henni í skógrækt þarf að gæta þess að sitkagreniskógur verði ekki of þéttur og dimmur, en það eru kjörskilyrði lúsarinnar. Einnig er gott að gróðursetja aðra trjátegund með sitkagreninu, sem lúsin getur ekki þrifist á.

Greining

Greinar í neðri hluta krónu eru láréttar, en í efri hluta skástæðar upp á við. Nálarnar eru dökkgrænar að ofan, en blágrænar á neðra borði. Þær eru hvassyddar, mjög stinnar og stinga óþægilega ef gripið er um þær. Nálarnar stinga meira á sitkagreni en á rauðgreni og blágreni, þó munurinn geti verið mismikill milli einstaklinga.  

Sitkagreni á Reyðarfirði

Sitkagreni á Reyðarfirði

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Ungt sitkagreni á Tálknafirði

Ungt sitkagreni á Tálknafirði

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Nýgróðursett sitkagreni á Akranesi

Nýgróðursett sitkagreni á Akranesi

Ljósmyndari: Jón Ásgeir Jónsson

Trén teygja sig hátt á Hallormstað

Trén teygja sig hátt á Hallormstað

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Sitkagreni í Heiðmörk

Sitkagreni í Heiðmörk

Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Kvistaður stofn

Kvistaður stofn

Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Einkennandi rák á nálarmaga

Einkennandi rák á nálarmaga

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Köngull í myndun og gömul frjóhús

Köngull í myndun og gömul frjóhús

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Brum að springa út

Brum að springa út

Litur nála á sveltu sitkagreni

Litur nála á sveltu sitkagreni

Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Nýsprotar á Sitkagreni

Nýsprotar á Sitkagreni

Ljósmyndari: Jón Ásgeir Jónsson

bottom of page