top of page

Barátta Eikarkonungs og Kristþyrniskonungs

Líf í lundi, útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins, hefur verið haldinn 5 ár í röð þá helgi sem er næst Jónsmessu. Í ár er dagurinn á sjálfri Jónsmessu, laugardaginn 24.júní 2023.

Nafnið Jónsmessa kemur frá Rómarkirkju, sem ákvað að haldið skyldi upp á fæðingu tveggja merkra manna á fornum sólstöðuhátíðum, Jesús Krists á vetrarsólstöðum og Jóhannesar skírara á sumarsólstöðum.

Á Íslandi var dagurinn tengdur ýmiskonar þjóðtrú. Jónsmessunótt þykir með mögnuðustu nóttum ársins og er góður tími til að finna steina með ýmsa heilsusamlega náttúru, gott að velta sér nakinn upp úr dögg, kýr tala og hvaðeina. Mörg okkar þekkja svo miðsumars hátíðarhöld frá meginlandi Evrópu og prúðbúna Norðurlandabúa dansa kringum frjósemissúlur eða brennur.

En á nágranna eyjum okkar til suðurs reyndu Keltar að útskýra hringrás árstíðanna sem baráttu milli tveggja konunga. Eikarkonungi annarsvegar sem ræður ríkjum yfir sumrinu, ljósinu, frjósemi og vexti, og Krisþyrniskonungi hinsvegar sem fylgir vetur, myrkur og dauði. Þessir tveir bræður mætast og berjast um kórónu ársins, sem þeir skiptast á að bera.

Oak king© og Holly king©; Mynd eftir Anne Stokes

Eikarkonungurinn er sagður klæðast grænu, bera kórónu úr eikarlaufum og akörnum og andlit hans þakið greinum og laufum. Á meðan Kristþyrniskonungurinn ber kórónu úr þyrnilaufum og berjum, klæðist rauðu og honum fylgja átta tarfar – kannast einhver við þessa lýsingu?

Þeir berjast á sólstöðum og kórónan skiptir um hendur. Í sumum sögum berjast þeir á jafndægrum þegar annar þeirra er veikastur. Hvort sem er, vex kraftur Eikarkonungsins nú, þó veldi Kristþyrniskonungsins virðist enn sterkt ef horft er út um gluggann. Eitt er víst; Eikarkonungurinn mun vekja brum og sprota og lyfta sólinni hærra á loft og við fagna því saman í grænum sal skógarins á Jónsmessu þann 24.júní.

Velkomin út í skóg!

Comments


Mest lesið
Nýlegar fréttir
Fréttasafn
Leitarorð
No tags yet.
Fylgstu með
  • Facebook Basic Square
bottom of page