Styrktarsamningur við Arion-banka undirritaður
Skógræktarfélag Íslands gerði nýlega samning við Arion-banka um stuðning bankans. Gildir samningurinn til þriggja ára og er styrkurinn tvískiptur. Annars vegar beinist styrkurinn í verkefni er heitir Skógarvist, Skógargátt og lýðheilsa, sem ætlað er að auka þekkingu almennings á skógum og auka aðgengi að upplýsingum um útivistarmöguleika í skógum landsins og hins vegar í almenna skógrækt, á eignalandi Skógræktarfélags Íslands að Úlfljótsvatni.
Var samningurinn undirritaður miðvikudaginn 5. apríl og skrifuð þau Halldór Harðarson og Anna Sigríður Kristjánsdóttir, fyrir hönd Arion-banka og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, undir samninginn.
Fagnar Skógræktarfélagið þessum samningi við bankann, enda löng saga stuðnings forvera Arion-banka (Búnaðarbankans og Kaupþings) við hin ýmsu skógræktarmál.