top of page

Tré bæta heilsu

Í síðustu viku mátti heyra pistil í Speglinum á RÚV sem fjallaði um góð áhrif trjáa og annars gróðurs á fólk. Í pistlinum var vitnað í rannsóknir umhverfisstofnunar Evrópu sem aftur var samantekt úr mörgum rannsóknum í Evrópu. Þar kom fram að aðgangur að skógum og grónum svæðum hefur mikil heilsubætandi áhrif, lengir líf fólks, dregur úr hættu á þunglyndi og offitu og hefur heilsubætandi áhrif á ófrískar konur. Í pistlinum kom fram að mikil og góð áhrif náttúrunnar á heilsu fólks hafi verið vanmetin og að dvöl í náttúrunni dragi úr ofnæmi og efli sjálfsvirðingu manna.

Mér þóttu þetta ekki vera nýjar fréttir, aðeins staðfesting á því sem manni hefur verið sagt frá barnæsku. Ég man ekki betur en að þetta hafi verið kennt í barnaskóla fyrir margt löngu nema hvað þá var lítið fjallað um tré sem á þeim tíma voru lítil og sjaldséð í henni Reykjavík þar sem ég ólst upp. Í gömlu heilsufræðinni var kennt að útivera væri talin nauðsynleg fyrir alla. Ennþá er kennt í skólum að útivera sé ágæt en í raun hefur sífellt meiri áhersla og peningar farið í að byggja íþróttahús og -hallir sem gagnast inniíþróttum og sérstaklega afreksíþróttum. Útivistarsvæði og göngu- og hjólreiðastígar hafa orðið útundan hjá flestum sveitarfélögum, þó slík svæði gagnist öllum og séu miklu ódýrari en íþróttahallirnar. Ekki hef ég neitt á móti íþróttahöllum svo fremi sem þær sogi ekki peninga frá öðrum nauðsynlegum útgjöldum sveitarfélaganna. Uppbygging útivistarsvæða gagnast öllum og er miklu ódýrari en dýrt húsnæði. Það þarf bara að bretta upp ermarnar og hefja framkvæmdir. Og við myndum uppskera ríkulega í bættri heilsu almennings og betra mannlífi.

Útivistarsvæði á Skaganum

Ég skrifaði grein í Skessuhorn 2012 um þörfina á göngu- og hjólreiðastíg meðfram þjóðveginum til Akraness. Lítið hefur gerst í því máli nema hvað lagðir hafa verið reiðstígar. Við sem viljum efla útivist á Skaganum í þágu alls almennings þurfum að þrýsta á að göngu- og hjólreiðastígar verði lagðir þarna og helst fá slíka stíga upp að Akrafjalli. Í Slögu, skógræktarsvæði Skógræktarfélags Akraness, kemur vaxandi fjöldi fólks til að njóta útivistar. Skógræktarfélagið hefur reynt að endurbæta stíga þarna og hefur vilja til að gera slíkt hið sama á skógræktasvæðinu meðfram þjóðveginum. Við höfum m.a. sótt um styrki frá Akranesbæ og ýmsum fyrirtækjum til að kaupa traktor sem myndi auðvelda okkur vinnu við göngustíga og útivistarsvæðin og auðvitað í skógræktinni. Það má deila um það hvort bláfátækt skógræktarfélag eigi að sjá um göngu- og hjólreiðastíga sem oftast eru í umsjá sveitarfélaganna. En sum sveitarfélög hafa gert þjónustusamning við skógræktarfélög um að sjá um göngu- og hjólreiðastíga og virðist það ganga vel. Hvernig sem Skagamenn vilja haga þeim málum þá er Skógræktarfélag Akraness reiðubúið til að leggja sitt af mörkum til eflingar útivistarsvæða Skagamanna og stuðla þannig að bættri heilsu almennings.

Skógræktarfélag Akraness stefnir að því að gróðursetja rúmlega 20 þúsund tré í ár. Við höfum sótt um viðbótarlandsvæði fyrir neðan Slögu. Þar höfum við sótt um svæði frá því fyrir 2009 og yfirleitt fengið góðar undirtektir en ekki hefur náðst að ganga frá samningum af ýmsum ástæðum. Við vonumst eftir að við getum hafið skógrækt í sumar á að minnsta kosti hluta þess svæðis sem við óskum eftir. Þarna getur orðið hluti af útivistarsvæðum Skagamanna í framtíðinni. Jafnframt höfum við óskað eftir að fá til umráða smáhluta af skógræktarsvæðum meðfram þjóðveginum sem okkur var úthlutað 2002 en hestaeigendur hafa girt af til einkanota.

Skógræktarfélag Akraness er félag áhugafólks sem hefur verið býsna duglegt í gegnum tíðina. Við þurfum ekki mikla fjármuni í skógræktina, þar hafa margar starfsamar hendur gróðursett tré án þess að þiggja önnur laun fyrir en ánægjuna og heilsubætandi útiveru. Við sumt annað þurfum við meiri stuðning og ber þar hæst stígagerð og útivistaraðstöðu. Þar þurfum við fjárhagslegan stuðning sveitarfélagins og annarra sem eru aflögufærir. Þá finnst okkur óneitanlega fara of mikill tími í girðingavinnu og rollurekstur. En við því er líklega ekkert að gera á meðan ekki má banna lausagöngu búfjár? Ef tækist að fá eigendur búfjár til að bera ábyrgð á sínum búpeningi þá hefðum við skógræktarfólk meiri tíma og fé til að sinna skógræktinni.

Í lokin hvet ég sem flesta til að leggja okkur lið í skógræktinni með því að ganga í félagið. Hvort heldur fólk treystir sér til vinnu eða ekki þá styrkir það félagið að gerast meðlimur. Skrá má sig í félagið á heimasíðu þess: http://www.skog.is/akranes/ Einnig má senda póst til jensbb@internet.is

Höf. er formaður Skógræktarfélags Akraness


Mest lesið
Nýlegar fréttir
Fréttasafn
Leitarorð
No tags yet.
Fylgstu með
  • Facebook Basic Square
bottom of page