top of page

Reykholtsskógur

Fróðleikur

 

 

Aldamótaskógar

 

Eins og flestir hlutar Íslands var Reykholt orðið skóglaust þegar kom fram á 20. öld. Endurheimt skógar í Reykholti hófst á 4. áratugnum þegar Þorgils Guðmundsson, kennari við Reykholtsskóla, hóf að fara með skólabörn í gróðursetningu. Árið 1948 hófst svo trjárækt hjá afkomendum og ættingjum hjónanna séra Einars Pálssonar og Jóhönnu K.K. Eggertsdóttur, en Einar var prestur í Reykholti 1908-1930. Hefur ræktun þeirra staðið nær óslitið síðan.  

Skógræktarfólk frá Norðurlöndum gróðursetti í Reykholti árið 1990, er það kom til Íslands í skiptiferð á vegum Skógræktarfélags Íslands. Fjórum árum síðar komu Norðmenn í annarri skiptiferð, gróðursettu og hlúðu að plöntum. 
 
Aldamótaskógurinn í Reykholti er um 5 ha að stærð og kom skógræktarfólk af öllu Vesturlandi saman til gróðursetningar ásamt Evrópukórnum, fjölþjóðlegum hópi ungmenna. Gróðursett var neðan og ofan þáverandi skógar. Gróðursetning Aldamótaskógarins hefur verið unnin í samvinnu Skógræktarfélags Borgarfjarðar, Skógræktarfélags Íslands og Reykholtsstaða.


Aldamótaskógar í Reykholti

 

Í tilefni þúsaldamóta árið 2000 og 70 ára afmæla Skógræktarfélags Íslands og Búnaðarbankans var stofnað til Aldamótaskóga. Fyrir valinu urðu fimm svæði, eitt í hverjum landshluta. Auk Reykholts eru það Gaddstaðir á Rangárvöllum, lönd Holts og Skriðnafells á Barðaströnd, Steinsstaðir í Skagafirði og Landnyrðingsskjólbakkar í landi Heydala í Breiðdal. Aldamótaárið 2000 gróðursettu sjálfboðaliðar og starfsmenn skógræktarfélaga liðlega 280 þúsundir skógarplantna, eina fyrir hvern Íslending. Búnaðarbankinn lagði til plöntur og áburð. Aldamótaskógum er ætlað að vera lifandi minnisvarði um tímamót í sögu þjóðarinnar og merkisafmæli samstarfsaðilanna tveggja, Skógræktarfélags Íslands og Búnaðarbankans. Í framtíðinni er markmiðið að þessi fimm svæði verði þekkt sem útivistarsvæði almennings og verður unnið að merkingu og kynningu þeirra.
 

 

 

 

 

 

 

bottom of page