Ljósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir
Ljósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir
Ljósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir
Ljósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir
Fróðleikur
Almennt um skóginn
Laugarvatnsskógur er einn af fyrstu skógum sem friðaðir voru fyrir beit hér á landi og er enn í umsjá Skógræktarinnar. Hann saman stendur af birkikjarri og gróðursettum lundum frá ýmsum tímum.
Staðsetning og aðgengi
Laugarvatnsskógur er í brekkunni fyrir ofan Laugarvatnsþorpið og teygir sig til vesturs fyrir ofan veginn um Lyngdalsheiði og til austurs inn fyrir tjaldsvæðið á Laugarvatni að landamerkjum Snorrastaða.
Aðstaða og afþreying
Stígar liggja um skóginn, m.a. frá tjaldmiðstöðinni á Laugarvatni. Í bænum eru tjaldstæði, sundlaug, aðstaða fyrir fatlaða og gönguleiðir í nærliggjandi skóga og svæði.
Saga skógarins
Skógurinn var friðaður á fyrstu árum skógræktar hér á landi. Ekki er ljóst
nákvæmlega hvaða ár fyrsta girðingin var sett upp, en í skýrslu Kofoed-Hansen skógræktarstjóra er tekið fram að fyrir 1912 hafi 3,3 ha verið girtir af og var sú girðing stækkuð í 75 ha árið 1914.
Upphaflega voru á svæðinu illa farnar kjarrleyfar 1-2 m á hæð og var svæðið friðað til að bjarga þeim frá eyðingu. Skógarnir í landi Laugarvatns eru hluti af skógarbelti sem nær frá Laugarvatni í vestri og alla leið inn í Haukadal og telst þetta vera með stærsta samfellda birkikjarri landsins. Birkið breiddist hægt út í fyrstu en smám saman jókst útbreiðsla þess og í dag er stærstur hluti Laugarvatnslands skógi vaxinn.
Trjárækt í skóginum
Skógurinn er blanda af birkikjarri og ýmsum gróðursettum tegundum. Er reyniviður áberandi víða um skógana en Laugarvatnsskógur var einn af fáum vaxtarstöðum reyniviðar samkvæmt skýrslu Einars Helgasonar frá 1899. Eftir 1950 voru enn stór skóglaus svæði innan girðingarinnar og var þá hafist handa við að gróðursetja í þau, einkum þar sem birki var farið að mynda skjól. Var því haldið áfram næstu áratugina en aldrei mikið í einu. Síðast var gróðursett í Laugarvatnsskóg 1992.
Annað áhugavert
Í skóginum eru tóftir a.m.k. 14 bygginga frá liðnum öldum. Flest eru þau beitarhús, til marks um að fé var haldið til vetrarbeitar í kjarrinu fyrr á öldum.
Fengið frá: www.skogur.is