top of page

Hvannir

Hvannir eru einar stórvöxnustu jurtir landsins og setja æ meiri svip á skóga landsins. Þessar duglegu plöntur bera mikinn blómsveip og hafa verið nýttar til lækninga um aldir.  Hér verður fjallað um tvær íslenskar hvannartegundir:

Ætihvönn (Angelica archangelica)

Geitahvönn (Angelica sylvestris)

Ætihvönn (Angelica archangelica)

Útlit

Stórgerð og hávaxin jurt sem getur náð allt að 180 sm hæð. Blöðin eru tví- til þrífjöðruð og smáblöðin gróftennt. Blaðslíðrin eru stór, útblásin og umlykja sveipinn meðan hann er að þroskast. Stöngullinn er sterklegur með víðu miðholi og greinist efst þar sem grænhvít blómin sitja mörg saman í samsettum sveipum. 

 

Ætihvönn er afar keimlík geitahvönn, en ætihvönn hefur stærri og grófari blöð og blómsveipurinn er kúptari. 

Útbreiðsla

Finnst víða um land bæði á lág- og hálendi. Útbreiðsla tegundarinnar hefur stóraukist á síðustu áratugum. Áður fyrr tengdu menn hana oft við gróðurvinir á hálendinu líkt og Hvannalindir. Hún hefur beðið færis á afskekktari stöðum, í afgirtum skógum, klettum, hólmum og giljum þar sem hún hefur fengið nægilegan frið fyrir beit. Nú er hana að finna víða á láglendi þar sem beit hefur linnt, í skurðum, lúpínubreiðum og gömlum túnum og er víða orðin ríkjandi skógarbotnstegund í skógum landsins. 

Blómgun 


Kjörlendi

Þrífst best í rökum og næringarríkum jarðvegi, oft við læki og lindir. Á áburðarríkum svæðum getur hún myndað þéttar breiður og orðið nær einráð. Hún er áberandi á gömlum túnum og er fljót að leggja undir sig og nýta áburðaráhrifin sem finna má í lúpínubreiðum. Þrífst vel í næringarríkum skógarbotni þar sem jarðvegsraki er nægur og skuggafall er ekki þeim mun meiri.

Annað áhugavert

Ætihvönn hefur lengi verið notuð sem lækningjurt og var ræktuð í litlum hvannargörðum við bæi. Hún þykir verk- og vindeyðandi, ráð við skyrbjúgi, góð til að losa slím í öndunarfærum og  gegn astma.

Geitahvönn (Angelica sylvestris)

 

Útlit

Stórvaxin planta (30-130 sm) með stórum blágrænum tví- til þrífjöðruðum blöðum og tenntum smáblöðum. Blóm geitahvannarinnar eru hvít og raða sér í smásveipi sem aftur mynda stærri samsetta sveipi. Blaðslíðrin eru stórvaxin og áberandi. 

Geitahvönnin er heldur minni og blómsveipurinn flatari en hjá ætihvönn. 

Blómgun

Útbreiðsla

Finnst allvíða á láglendi í öllum landshlutum en takmarkað upp á hálendi, ólíkt ætihvönninni. Hæst hefur hún fundist í 500 m hæð hjá Laugum við Snæfell. 


Kjörlendi

Vex í einkum í nálægð við vatn, í blómsælum giljum og í röku skóglendi. Geitahvönnin er hitakærari en ætihvönnin, sem skýrir útbreiðslumynstrið á landinu. 

Annað áhugavert

Talið er að lækningarmáttur geitahvanna sé hinn sami og hjá ætihvönn, en áhrifin minni.
 

Ætihvönn og sitkagreni í faðmlagi

Ætihvönn og sitkagreni í faðmlagi

Ljósmyndari: Jón Ásgeir Jónsson

Fræ farin að þroskast hjá ætihvönn

Fræ farin að þroskast hjá ætihvönn

Ætihvönn á Reyðarfirði

Ætihvönn á Reyðarfirði

Ætihvönn í skógarbotni

Ætihvönn í skógarbotni

Ljósmyndari: Jón Ásgeir Jónsson

Ætihvönn
Geitahvönn
bottom of page