Hánefsstaðir
-Upplýsingar
Ábyrgðaraðili: Skógræktarfélag Eyfirðinga
Upphafsmaður skógræktar á Hánefsstöðum var eldhuginn og athafnamaðurinn Eiríkur Hjartarson rafmagnsverkfræðingur, sem keypti jörðina og hóf þar skógrækt 1946. Eiríkur, sem einnig er upphafsmaður Grasagarðsins í Laugardal í Reykjavík, var fæddur og uppalinn í Svarfaðardal og átti þar sterkar rætur þótt hann settist að í Reykjavík.
Skógræktina á Hánefsstöðum hóf hann með því að reisa mikla girðingu um reitinn og var svo vandað til þess verks að nú, meira en hálfri öld síðar, er sú girðing í fullu gildi. Næsta áratuginn eða svo flutti Eiríkur með sér frá Reykjavík plöntur sem hann og fjölskylda hans gróðursettu á Hánefsstöðum og kennir þar ýmissa grasa. Alls var í hans tíð plantað 94.633 plöntum í þessa 12 ha lands.
Nyrst í skóginum útbjó Eiríkur litla tjörn sem er mjög til prýði. Árið 1965 ánafnaði Eiríkur Skógræktarfélagi Eyfirðinga skóginn og tók félagið þá við umhirðu hans. Eiríkur féll frá 1981 og árið 1986, á 40 ára afmæli reitsins, reisti fjölskyldan honum minnisvarða sem stendur skammt innan við syðra hliðið að reitnum.
Skógræktarfélagið átti jörðina fram yfir 1980 að hún var seld að undanskildum skóginum.
Hánefsstaðaskógur hefur í síauknum mæli laðað til sín fólk, enda frábært útivistarsvæði, fjölbreytt og fallegt í tignarlegu umhverfi.
Árið 1999 var undirritaður samningur milli Skógræktarfélags Eyfirðinga og Dalvíkurbyggðar um að Hánefsstaðaskógur yrði útivistarsvæði Dalvíkurbyggðar og hófst þar með nýr kafli í sögu þessa merka skógar. Skógræktarfélagið annast skipulag og yfirumsjón framkvæmda en Dalvíkurbyggð greiðir kostnað við þær og leggur til vinnuafl.
Nú þegar hafa verið lagðir göngustígar og reist leiktæki í skóginum. Þá hafa fjölmargar trjátegundir verið merktar meðfram göngustígum og grillaðstaða er á samkomusvæðinu.
Allir sem leið eiga um Svarfaðardal eru hvattir til að gefa sér tíma til að ganga um skóginn á Hánefsstöðum.
Ljósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir
Ljósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir
Ljósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir