top of page
Blágreni
Blágreni (Picea engelmannii) er formfagurt, sígrænt tré sem hefur reynst vel í ræktun hér á landi og hentar við fjölbreytt skilyrði. Blágreni er önnur algengasta grenitegundin í ræktun á Íslandi, næst á eftir sitkagreni. Það hefur verið ræktað hér allt frá árinu 1905 en þá voru nokkur tré gróðursett í Mörkinni á Hallormsstað, sem hafa nú náð yfir 20 m hæð. Þessi tré eru væntanlega upprunnin í um 3.000 m hæð í Klettafjöllum Bandaríkjanna. Þau báru fyrst fræ árið 1946 og vaxa afkomendur þeirra nú víða um land.
Upprunaleg heimkynni blágrenis eru í vestanverðri Norður-Ameríku, frá Nýju-Mexíkó í suðri allt norður í miðja Bresku-Kólumbíu. Þar vex það yfirleitt nokkuð hátt yfir sjó, syðst allt upp í 3.700 m hæð en nyrst upp í 1.500-2.000 m hæð. Blágreni er langlíf trjátegund sem nær í heimkynnum sínum 400-500 ára aldri og getur orðið allt að 50 m há við bestu vaxtarskilyrði.
Notkun
Blágreni hefur reynst vel í ræktun hér á landi og er það nú að finna í nær öllum héruðum landsins. Það er álitlegt til ræktunar hjá garð- og sumarhúsaeigendum, í útivistarskóga og -svæði, til viðarnytja og síðast en ekki síst til notkunar sem jólatré. Mörgum þykir liturinn aðlagandi og einnig er blágreni sæmilega barrheldið.
Ræktun
Blágreni er fremur seinvaxið tré hérlendis og því ekki mikið notað í timburskógrækt. Greinarnar leggjast auðveldlega niður undan snjóþyngslum og hentar tegundin því vel á snjóþungum stöðum. Annar eiginleiki blágrenis er sá að það er skuggþolið og getur vaxið við lægri sumarhita en flestar aðrar grenitegundir. Blágrenið vex best í frjóum, rökum jarðvegi og svarar áburðargjöf vel. Það getur þó náð sæmilegum þroska í þurrum og nokkuð rýrum jarðvegi. Ágætt er að bera reglulega tilbúinn áburð á blágreniplöntur í uppvextinum.
Meindýr
Helsta vandamálið við ræktun blágrenis tengist meindýri sem kallast sitkalús. Hún er græn, á stærð við títuprjónshaus og heldur sig neðan á nálunum. Getur hún valdið skemmdum og lýsa þær sér í því að nálarnar verða brúnar og falla trénu. Lúsin hefur valdið skemmdum um allt land. Hún þolir illa mikið frost og er því sjaldgæfari inn til landsins, heldur en nærri ströndinni, þar sem vetur eru mildari.
Undantekning er þó að lúsin drepi tré, en hún getur dregið úr vexti þeirra í slæmum lúsaárum. Hún kann best við sig í dimmu og raka og á hún þá einnig auðveldara með að komast á milli trjáa í þéttum lundum. Því er það helst til ráða að grisja skógarreiti ef vilji er til þess að halda faröldrum niðri. Hæpið er að fara út í úðun á skógarreitum, enda ekki sjálfbær aðgerð.
Greining
Blágreni líkist öðrum Norður-Amerískum grenitegundum og líkt og nafnið gefur tilkynna bera nálar bláleitan keim. Liturinn er þó ekki mjög ábyggilegt greiningareinkenni, þar sem talverður munur er á milli kvæma og einstaklingsmunur. Þó er hægt að nota litinn sem vísbendingu og þá sérstaklega á ársprotum sem geta borið hinn einkennandi blágrænan lit.
Tvö önnur atriði má nefna sem eru handhæg til að greina blágreni. Hið fyrra er greinavinkillinn. Greinar blágrenisins mynda um 90° horn út frá stofni meðan greinar sitkagrenis eru yfirleitt uppsveigðar. Hitt einkennið er að nálarnar eru alls ekki eins hvassar og á flestum öðrum grenitegundum sem hér eru ræktaðar. Því er yfirleitt hægt að grípa með krepptum hnefa um blágrenigreinar, sem er til dæmis afar óþægilegt á sitkagreni.
Fallegt blágreni í SkarðdalsskógiLjósmyndari: Einar Gunnarson | Ungt greni í BreiðdalLjósmynd: Jón Ásgeir Jónsson |
---|---|
Formfagurt tré ofan FlateyrarLjósmynd: Jón Ásgeir Jónsson | Ungt blágreni á Siglufirði |
Ungur blágrenireiturLjósmyndari: Einar Gunnarson | Tilflutt ungplanta á EskifirðiLjósmyndari: Jón Ásgeir Jónsson |
Blágrenilundur í SkarðdalsskógiLjósmyndari: Einar Gunnarson | Fjólubláar nálar |
Teygt blágreni í hröðum vextiLjósmynd: Jón Ásgeir Jónsson | Keilulaga blágreni í DaníelslundiLjósmynd: Jón Geir Pétursson |
Ungur blágrenireiturLjósmyndari: Einar Gunnarson |
bottom of page